Ísland hefur bætt aðeins stöðu sína á árlegum lista Transparency International yfir spillingu í heiminum. Ísland er nú í 11. sæti listans en var komið niður í 13. sætið í fyrra.
Fyrir hrunið 2008 var Ísland iðulega í efstu sætunum á listanum og þá talið eitt minnst spillta land heimsins. Eftir hrunið hefur Ísland stöðugt fallið niður listann þar til í ár.
Ísland var í efsta sæti listans árið 2005 en var fallið niður í sjötta sætið árið 2007 og síðan hefur stöðugt hallað undir fæti þar til í ár.
Nýja Sjáland er sem fyrr í efsta sæti listans sem nær yfir 176 þjóðir. Næst á eftir koma Danmörk og Finnland.
Grikkland hefur hríðfallið niður þennan lista og telst nú spilltasta þjóðin innan Evrópusambandsins. Þann vafasama heiður hafði Búlgaría áður. Grikkland er komið niður í 94. sæti listans.
Mesta spillingin er hinsvegar talin vera í Sómalíu og Norður Kóreu en þessar þjóðir ásamt Afganistan deila neðstu sætunum á listanum.
