Innlent

Vilja að tímamörk um afnám gjaldeyrishafta verði afnumin

HMP skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra.
Nefnd með fulltrúum allra stjórnmálaflokka lýsir yfir áhyggjum sínum að því að tveir af gömlu bönkunum stefni á nauðasamninga og skipulagðri útgreiðslu fjármuna til kröfuhafa, sem geti ógnað fjármálalegum stöðugleika þjóðarinnar. Nefndin vill að tímamörk um afnám gjaldeyrishafta verði felld brott úr lögum og óskar eftir fundi með formönnum stjórnmálaflokkanna fyrir jól.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að vegna þess að lög gerðu ráð fyrir að gjaldeyrishöftin verði afnumin að fullu fyrir árslok 2013, hefði gengið erfiðlega að losa um gjaldeyrislegar snjóhengjur sem hengju yfir þjóðinni, vegna þess að erlendir kröfuhafar biðu átekta eftir því að fá kröfur sínar greiddar að fullu. Jóhanna ætlar að boða formenn flokkanna á fund með nefndarmönnum á morgun. Í bréfi hennar hvetur hún stjórnvöld til að halda öllum valkostum opnum við afnám haftanna, losun þeirra verði tengd efnahagslegum skilyrðum en ekki bundið við tiltekna dagsetningu.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fagnar því að málið komi inn á borð formanna flokkanna, en taldi skilaboð stjórnvalda misvísandi, þar sem utanríkisráðherra hefði talað um það í Brussel, að Evrópusambandið myndi aðstoða íslendinga við afnám haftanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×