Erlent

Skólapiltar frumsýna The Hobbit á YouTube

Nemendur við Tower House skólann í Bretlandi hafa skotið leikstjóranum Peter Jackson ref fyrir rass og framleitt sína eigin kvikmynd byggða á Hobbitanum eftir J.R.R. Tolkien.

Rúmlega sjötíu piltar, frá aldrinum átta til þrettán ára, komu að gerð kvikmyndarinnar. Fjármagnið var nánast ekkert og þurftu strákarnir því að virkja hugvitið. Einn ungur kvikmyndagerðarmaðurinn átti þó inni greiða hjá föður sínum sem rekur framleiðslufyrirtæki og því birtist tölvugerður dreki á einum tímapunkti í myndinni.

Hobbitinn hefur nú þegar verið sýndur í nokkrum kvikmyndahúsum í Bretlandi og hafa viðtökur verið góðar að sögn kennara við Tower House.

„Metnaður strákanna var með ólíkindum," sagði Paul Geary, kennari, í samtali við Evening Standard. „Þetta litla verkefni sýnir hversu mikilvæg leiklistarkennsla er í námi barna."

Nokkrir víðfrægir leikarar hafa stundað nám við Tower House í gegnum tíðina. Þar á meðal er Tom Hardy, illmennið Bane í The Dark Knight Rises, og hjartaknúsarinn Robert Pattinson sem sýnt hefur stjörnuleik í Twilight-kvikmyndunum.

Hægt er að sjá stiklu úr Hobbitanum hér fyrir ofan. Kvikmyndin verður síðan frumsýnd í heild sinni á YouTube á næstu vikum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×