Innlent

Brennuvargur í gæsluvarðhald - grunaður um að hafa kveikt í Kaffi Krús

Kaffi Krús á Selfossi
Kaffi Krús á Selfossi
Maður, sem grunaður er um að hafa undanfarna mánuði kveikt í bréfum hér og þar á Selfossi, hefur verið úrskurðaður í þrjátíu daga gæsluvarðhald. Yfirlögregluþjónn segir að mikil hætta hafi skapast í nokkrum tilvikum.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var það á aðfaranótt þriðjudags í síðustu sem lögreglumenn sáu til hans stappa á logandi blöðum við útidyr lögreglustöðvarinnar í bænum. Það var ekki í fyrsta skiptið sem það gerðist.

Samkvæmt Oddi Árnasyni, yfirlögregluþjóni á Selfossi, er maðurinn einnig grunaður um að hafa kveikt í blómaskreytingu við veitingastaðinn Kaffi Krús í bænum í byrjun mánaðarins. Mikil hætta skapaðist en það var fyrir tilstilli gesta á staðnum að ekki fór verr. Litlu munaði að eldurinn hefði náð að læsa sig í húsinu.

Þá er hann einnig grunaður um að tengjast íkveikju á Eyrarvegi í ágúst en þar hafði verið verið kveikt í rusli við nytjamarkað á staðnum. Þar varð umtalsvert tjón og þurfti að reykræsta húsið.

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald á miðvikudag og féllst dómari við Héraðsdóm Suðurlands á þrjátíu daga varðhald. Að sögn lögreglu áfrýjaði maðurinn úrskurðinum til Hæstaréttar og er búist við niðurstöðu þaðan í dag.

Maðurinn hefur áður komið við sögu lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×