Innlent

Meðlimir skipulagðra glæpasamtaka ekki í almenn fangelsi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Fangelsismálayfirvöld ætla að taka hart á föngum sem tilheyra skipulögðum glæpasamtökum. Verið er að taka í gagnið nýjar verklagsreglur sem fela meðal annars í sér að fangar sem tilheyra slíkum samtökum fá ekki að afplána í opnum fangelsum og stífari skilyrði eru fyrir reynslulausn.

Vélahjólasamtökin Hells Angels og Outlaws hafa hreiðrað um sig hér á landi síðustu misseri. Interpol skilgreinir bæði samtökin sem skipulögð alþjóðleg glæpasamtök. Á annan tug félaga í þessum samtökum afplána nú dóma í fangelsum.

Til að bregðast við þessari stöðu og koma í veg fyrir gengjamyndun innan fangelsanna hefur Fangelsismálastofnun um nokkurra mánaða skeið unnið að sérstökum verklagsreglum. Verið er að taka þær í notkun þessa dagana en þær gilda um félaga í samtökum sem skilgreind eru sem skipulögð glæpasamtök.

„Afplánun þessara fanga mun fara fram með öðrum hætti en annarra. Þeir eiga ekki möguleika á að vistast í opnum fangelsum, þeir geta ekki vistast á Vernd og þeir fara ekki undir rafrænt eftirlit og hljóti þeir reynslulausn þá er það með mjög stífum skilyrðum," segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.

Hvaða skilyrðum þá?

„Meðal annars þau skilyrði að þeir umgangist ekki aðra menn sem að eru í þessum samtökum. Vinni ekki fyrir samtökin og ef þeir brjóta þessar reglur þá fara þeir aftur inn," segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.

Takmarkanir eru á heimsóknum til félaga í skipulögðum glæpasamtökum og öll merki sem tengjast slíkum samtökum eru bönnuð innan fangelsanna. Páll segir að eins go staðan er nú í fangelsismálum sé hins vegar ekki hægt að aðskilja meðlimi í ólíkum samtökum.

„Það er vissulega erfitt með þennan aðbúnað sem við höfum," segir Páll.

Þá segir hann fangelsismálayfirvöld fá upplýsingar frá lögreglu um það hvaða fangar tilheyra Hells Angels og Outlaws.

„Við byggjum á upplýsingum frá lögreglu og erum í góðum samstarfi við lögreglu," segir Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×