Innlent

Skipt út úr stjórn og fulltrúaráði Eirar

Þrír hafa þegar hætt í stjórn Eirar og munu aðrir hætta í dag. f
Þrír hafa þegar hætt í stjórn Eirar og munu aðrir hætta í dag. f réttablaðið/stefán
Flestum ef ekki öllum fulltrúum í fulltrúaráði Hjúkrunarheimilisins Eirar verður skipt út á fundi í dag. Í kjölfarið verður skipuð ný stjórn. Samstaða er meðal flestra um að óska eftir rannsókn á fjármálum hjúkrunarheimilisins á næstunni.

Langflestum fulltrúum í fulltrúaráði Eirar verður skipt út á fundi í dag. Í kjölfarið verður nýtt fulltrúaráð skipað. Stjórn hjúkrunarheimilisins mun funda áður en fundur fulltrúaráðsins hefst.

Það eru stofnaðilar Hjúkrunarheimilisins Eirar sem velja fulltrúa í fulltrúaráðið. Flesta fulltrúa á Reykjavíkurborg, eða sjö, en aðrir eiga þrjá fulltrúa í ráðinu. Það eru Seltjarnarnesbær, Mosfellsbær, Samtök blindra og blindravina, Sjómannadagurinn í Reykjavík og Hafnarfirði, Skjól, VR, Félag áhugafólks og aðstandenda Alzheimerssjúklinga, Brynja – hússjóður Öryrkjabandalagsins, Efling og SÍBS.

Flestir stofnaðilanna ætla sér að skipta út fulltrúum sínum á fundinum í dag. Í kjölfarið er ætlunin að skipta út stjórn hjúkrunarheimilisins, en óvíst er hvort tekst að gera það á fundinum í dag eða hvort boða þarf aukafund til þess.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er samstaða um það meðal stofnaðilanna að óska eftir því að fjármál hjúkrunarheimilisins verði rannsökuð.

Óvíst er þó hvernig sú rannsókn fer fram, en þrír stjórnarmenn hjá Eir fóru með gögn á fund sérstaks saksóknara fyrr í vikunni og óskuðu þess að hann athugaði hvort tilefni væri til að rannsaka starfsemina. Þetta voru þau Stefán Benediktsson, Þórunn Sveinbjörnsdóttir og Björn Agnar Magnússon, en ekki var haft samráð við aðra stjórnarmenn eða stjórnendur hjá Eir áður en þetta var gert. Að sama skapi hafa þessir þrír stjórnarmenn gert athugasemdir við boðun fulltrúaráðsfundar, sem fer fram í dag, en þeir telja að fundarboðið hafi verið ólöglegt. Í stað þess að boða skráða fulltrúa til fundar hafi skrifstofa Eirar sent frá sér bréf þar sem óskað var eftir því að stofnaðilar tilnefndu nýja fulltrúa í ráðið.

Samkvæmt reglum er það stjórnin sem boðar til fulltrúaráðsfunda og þeir verða að vera haldnir minnst tvisvar á ári.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×