Innlent

Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna kynntar á morgun

Tilnefningar til Fjöruverðlaunanna verða tilkynntar í Aðalsafni Borgarbókasafns Reykjavíkur, Grófarhúsi á morgun klukkan fimm. Fjöruverðlaunin eru bókmenntaverðlaun kvenna en þau eiga uppruna sinn að rekja til Góugleðinnar, bókmenntahátíðar kvenna, sem haldin var í fyrsta sinn vorið 2007 að frumkvæði hóps kvenna innan Rithöfundasambands Íslands.

Veitt eru verðlaun í þremur flokkum sem eru: fagurbókmenntir, fræðibækur og barna- og unglingabækur. Árið 2011 var tekið upp á þeirri nýbreytni að tilnefna þrjár bækur í hverjum flokki áður en verðlaunin eru veitt. Nú eru í þriðja skipti kynntar tilnefningar til Fjöruverðlaunanna.

Dómnefnd Fjöruverðlaunanna 2013

Fagurbókmenntir:

Sigríður Stefánsdóttir, þjóðfélagsfræðingur og verkefnastjóri hjá Akureyrarbæ, Þóra Sigríður Ingólfsdóttir, bókmenntafræðingur og forstöðumaður Blindrabókasafnsins og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, bókmenntafræðingur

Fræðibækur:

Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, Sigríður Guðmarsdóttir, sóknarprestur í Guðríðarkirkju og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands

Barna- og unglingabækur:

Helga Margrét Ferdinandsdóttir, ritstjóri tímaritsins Börn og menning, Líf Magneudóttir, B.ed. og meistaranemi í íslensku og Brynhildur Björnsdóttir, blaðamaður




Fleiri fréttir

Sjá meira


×