Innlent

Sterk staða kvenna skýrist af góðri menntun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.
Sú staðreynd að World Economic Forum fullyrti í ár að mesta jafnréttið í heiminum væri á Íslandi má skýra með mikilli og góðri menntun Íslendinga og með kosningu Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta. Þetta segir Vigdís sjálf í viðtali við BBC sem tekið var í tilefni af áttatíu ára afmæli BBC World Service. Talað var við nokkra einstaklinga sem hafa náð áttatíu ára aldri.

„Allt sem er jákvætt í þessum skilningi er hægt að þakka menntun, en kosning mín sem forseta hafði auðvitað eitthvað með það að gera. Þegar ég var kosin árið 1980 var einungis 5% þingmanna konur, þær eru nú 46%," sagði Vigdís. Eftir kjör sitt hafi stúlkur og konur byrjað að trúa á sig sjálfar. Fólki hafi orðið það ljóst að fleiri en karlmenn væru færir um rökrétta hugsun.

Í viðtalinu vakti Vigdís þó athygli að því að jafnvel á Íslandi ríki enn ójafnrétti þegar kemur að launamálum. „Þegar það kemur að störfum sem krefjast menntunar eins og læknastörf, fræðistörf og hærri stöður er jafnrétti," segir Vigdís, en nokkur launamunur sé þegar kemur að minna sérhæfðum störfum. Þetta sé sífellt til umræðu á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×