Innlent

Eldur kom upp í flugrútunni á Reykjanesbraut

MYND/FRÉTTASTOFA
Eldur kom upp í flugrútunni á Reykjanesbraut rétt fyrir klukkan níu í morgun. Sextíu farþegar voru í bílnum en fólkið var á leið til Keflavíkur í flug.

Þegar slökkvilið kom á vettvang logaði talsverður eldur aftast í bílnum, þar sem vélin er staðsett og teygðu logarnir sig upp eftir afturgaflinum að sögn vaktstjóra hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.

Farþegarnir höfðu hinsvegar allir komist út heilir á húfi og amaði ekkert að þeim.

Rekstraraðili rútunnar sendi strax annan bíl á vettvang og hélt hópurinn för sinni áfram upp á Keflavíkurflugvöll.

Slökkviliðið lauk slökkvistarfi sínu á skömmum tíma en atburðurinn átti sér stað til móts við Haukaheimilið í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×