Innlent

Fjölmörg snjóflóð hafa fallið

Veðurstofu hefur borist fjölmargar tilkynningar um snjóflóð á Vestfjarðarkjálkanum síðasta sólarhring. Snjóflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu segir að líklegt sé að tugir snjóflóða hafi fallið í Súðarvíkur- og Kirkjubólshlíðinni. Ljóst sé að mörg snjóflóð hafi fallið inn með dölum og upp til fjalla. Ekki er vitað til þess að snjóflóð hafi valdið skemmdum eða tjóni á svæðinu.

Hættustig vegna snjóflóða er enn í gildi fyrir Patreksfjörð, Flateyri, Hnífsdal, Ísafjörð og Súðavík. Ferðalangar þurfa að hafa varann á þegar farið er um svæði þar sem snjóflóð geta fallið. Ofsaveðrið sem geisað hefur á Vestfjörðum er að ganga niður samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu. Enn er þó hvasst til fjalla.

En þó versta veðrið sé nú afstaðið gengur norðanáttin mjög hægt niður. Búast má við hvassviðri eða stormi fram eftir degi og strekkingur eða allhvass vindur á morgun.

Eins og fram hefur komið er rafmagn komið aftur á á Ísafirði. Engu að síður má búast við áframhaldandi rafmagnstruflunum framan af degi.

Víða er ekkert GSM-samband vegna rafmagnsleysis á farsímasendum. Sem fyrr er landlínan öruggust og er fólki ráðlagt að verða sér út um snúrusíma sem kallar ekki hleðslu með rafhlöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×