Innlent

Fjölmargir rafmagnsstaurar brotnir

Vinnuflokkur RARIK vann við viðgerð á rafmagnslínum við Neðri-Brekku í Saurbæ í Dalasýslu í nótt. Það var Steinþór Logi Arnarsson sem tók meðfylgjandi myndir af viðgerðunum en í ljós kom að það reyndust að minnsta kosti 9 staurar hafa brotnað í óveðrinu sem hefur geisað á svæðinu um helgina.

Auk þess voru aðrir fjórir staurar brotnir fyrir ofan Efri-Brunná í Saurbæ en þar var rafmagn lagt niður á jörð. Rafmagnsleysi af völdum þess varði í tvo sólahringa í Saurbæ og á Skarðsströnd.



Notendur þar hafa verið rafmagnslausir í meira en 46 tíma. En um er að ræða bráðabirgðaviðgerð. Þá er enn rafmagnslaust á Fellströnd frá Víghólsstöðum að Klofning, en farið verður í viðgerðir þar í birtingu.

Einnig hafa verið rafmagnstruflanir á Staðarsveitalínu í gærkvöldi og nótt.

Búið er að bæta við einni varaaflisvél í Ólafsvík en beðið er eftir annari vél frá Hornafirði. Notendur í Ólafsvík, Rifi og Hellisandi eru beðnir um að fara sparlega með rafmagn.

Gott væri ef þeir sem geta tekið út t.d. kælivélar eða önnur orkufrektæki seinnipart dags og fram á kvöld gerðu það, svo ekki komi til skömmtunar eða að vélar leysi út vegna álags þegar íbúar hefja matseld, að því er fram kemur í tilkynningu á heimsíðu RARIK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×