Innlent

Grafalvarlegt að hafna frestun á gildistöku nýrra barnalaga

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, segir það grafalvarlegt að Alþingi hafi hafnað frestun á gildistöku nýrra barnalaga. Óvænt tíðindi urðu á Alþingi í gær þegar þrjár tillögur frá stjórnarandstöðuþingmönnum voru samþykktar þvert á vilja ríkisstjórnarinnar. Um tíma var búið að samþykkja lög sem aldrei áttu að taka gildi.

Síðasta þingfundi fyrir jólafrí var slitið klukkan fimm mínútur yfir þrjú í nótt en þá hafði fundurinn staðið yfir í tæpar sautján klukkstundir.

Hlé var gert á atkvæðagreiðslum þegar í ljós kom að ekki voru nægilega margir stjórnarliðar í þinghúsinu til að styðja tillögur ríkisstjórnarinnar.

Þrjár breytingartillögur stjórnarandstöðunnar voru því óvænt samþykktar - tillögur um skattalækkanir á taubleyjum og smokkum og þá hafnaði alþingi frumvarpi innanríkisráðherra um frestun á gildistöku nýrra barnalaga.

Niðurstaðan er afar óheppileg fyrir ríkisstjórnina enda mjög sjaldgæft að tillögur stjórnarandstöðunnar séu samþykktar með jafn óvæntum hætti og í gær. Þetta endurspeglar kannski fyrst og fremst þá erfiðu stöðu sem ríkisstjórnin er í - með sinn nauma en jafnframt brothætta meirihluta.

Hann segir það vera grafalvarlegt mál að alþingi hafi hafnað frestun á gildistöku barnalag. Ósk um frestun hafi komið frá sýslumönnum sem eiga sjá um framkvæmd laganna.

„En alþingi hafði að vettugi óskir um frestun sem kemur frá sýslumannsembættum þeim sem eiga að framkvæma lögin og við sitjum uppi með helmingi minna fjármagn til þessa verkefnis en efni standa til," segir hann.

Eftir að alþingi samþykkti lækkun á virðisaukaskatti á taubleyjum og smokkum var hins vegar tillaga um gildistöku felld. Því var kominn upp sú staða að alþingi var búið að samþykkja lög sem aldrei áttu að taka gildi

Björn Valur Gíslason, formaður fjárlaganefndar, segir að þessi niðurstaða sé ekki til þess fallinn að veikja ríkisstjórnina.

„Þó að við höfum samþykkt að lækka virðisaukaskatt á taubleyjur, á smokkum og þar að auki tekið þá skynsamlegu ákvörðun að láta þetta taka gildi, það sýnir ekki mikið veikleikamerki í þinginu," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×