Innlent

Krefjast réttlæti fyrir Damimi

Fjölmenn mótmæli standa yfir í Indlandi vegna nauðgunar á ungri konu í strætisvagni fyrr í vikunni. Mótmælendur brjóta þar með bann við slíkum fjöldasamkomum.

Yfir sex hundruð nauðganir hafa verið tilkynntar í Nýju Delhi það sem af er ári. Sex hafa verið handteknir vegna gruns um að hafa nauðgað ungri konu í strætisvagni á sunnudag, barið hana og hent henni síðan út úr vagninum. Málið hefur vakið upp mikla reiði í samfélaginu, þúsundir hafa safnast saman á götum úti síðustu daga og krafist rettlætis fyrir konuna.

Áverkar hennar eftir nauðgunina voru svo alvarlegir að hún þurfti að berjast fyrir lífi sínu á spítala. Hún hefur nú náð nægjanlega miklum styrk til að gefa lögreglu skýrslu.

Nafn hennar hefur ekki verið gefið upp en mótmælendur kalla hana Damimi, sem þýðir elding á hindí. Damimi er einnig nafn á Bollywoodmynd þar sem aðalpersónan berst fyrir fórnarlamb nauðgunar.

Mannréttindasamtök í Indlandi hafa nú krafið stjórnvöld um skýringar á því hvernig svo hrottaleg árás getur átt sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×