Innlent

Margir leita eingöngu aðstoðar í desember

BBI skrifar
Vilborg Oddsdóttir.
Vilborg Oddsdóttir.
Jólin eru öðru vísi tími hjá Hjálparstofnun kirkjunnar. Hjálparstarfið er starfrækt allt árið en í desember leita margfalt fleiri aðstoðar en á öðrum árstímum.

„Það eru fjölskyldur úti í bæ sem þrauka nánast allt árið. En desember er erfiður mánuður þannig að margir leita eingöngu í desember til hjálparstofnana," sagði Vilborg Oddsdóttir, frá Hjálparstofnun kirkjunnar í viðtalsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag. „Sömuleiðis er desember sá mánuður sem margir vilja gefa og láta gott af sér leiða," bætti hún við.

Það er því talsvert meira álag á hjálparstofnunum um jólin en starfið er þrátt fyrir allt mjög gefandi.

„Maður mætir oft gleðitárum þegar maður veitir aukaaðstoð yfir jólin," sagði Vilborg.

Vilborg ræddi hjálparstörf og hátíðarhöld í útvarpsþáttinum ásamt séra Ólafi Jóhannssyni presti í Grensáskirkju.

„Fyrir hrun áttu allir að fá svo ofboðslega stórar jólagjafir," sagði Vilborg og telur að venjulegt fólk hafi átt í miklum erfiðleikum með þá kröfu. „Svo fannst mér eftir hrun að við værum aðeins búin að ná jólunum niður á jörðina. En það var held ég bara eitt eða tvö ár. Nú erum við bara farin af stað aftur. Ég meina var ekki spjaldtölva jólagjöfin í fyrra?"

Þáttargestir voru sammála um að samanburður af slíkum toga væri fremur óheppilegur, einkum fyrir börn sem ættu erfitt með að skilja hvers vegna sumir fá æpandi dýrar jólagjafir meðan aðrir fá eitthvað minna.

Hér að ofan má heyra viðtalið í heild sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×