Innlent

Talsvert um ferðmenn á Íslandi yfir jólin

BBI skrifar
Mynd/Anton Brink
Talsverður fjöldi ferðamanna eyddi jólunum á Íslandi þetta árið. Líklega eyddu heldur fleiri ferðamenn jólunum hér á landi í ár en í fyrra að sögn Ernu Hauksdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar.

„Það er alltaf talsvert slangur hér af ferðamönnum yfir jólin þó það sé ekki eins mikið eins og um áramótin. Þá eru öll helstu hótel orðin full fyrir löngu síðan," segir Erna.

„Við höfum ekki gert nákvæma könnun á því hve margir voru hér þetta árið. En það hafa síðustu árin verið svona 1500-1700 manns. Það er kannski frekar aðeins meira heldur en minna þetta árið," segir hún.

Erna segir að ferðamenn sem ákveða að eyða jólunum hér hafi almennt nóg að gera yfir hátíðirnar. „Það eru mjög fínar jólaveislur á hótelum á aðfangadag. Síðan eru ýmiss konar dagsferðir frá Reykjavík alla daga ársins. Fólk getur farið að sjá Gullfoss og Geysi eða skellt sér í Bláa Lónið jafnt á aðfangadag sem aðra daga," segir Erna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×