Innlent

Lýst eftir Stebba þrekvaxna

Tvær líkamsárásir áttu sér stað á Hvíta húsinu á Selfossi samkvæmt lögreglunni.

Fyrri árásin átti sér stað rétt um klukkan tvö þegar maður sló annan í höfuðið með flösku. Sá sem varð fyrir árásinni hlaut skurð á höfði og hann var fluttur með sjúkrabifreið á heilsugæslustöðina á Selfossi þar sem gert var að sárum hans.

Ekki er vitað með vissu hver árásarmaðurinn er samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

Honum er lýst með axlasítt dökkt hár og þrekvaxinn. Hann var í köflóttri skyrtu og með græna derhúfu og kallaður Stebbi. Lögreglan biður þá sem voru vitni að árásinni eða geta veitt upplýsingar að hafa samband í síma 480 1010.

Uppúr klukkan fjögur var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna áfloga inni á skemmtistaðnum. Einhver ólga var á meðal hóps manna sem lyktaði með því að dyraverðir yfirbuguðu einn mann sem lögreglumenn handtóku í kjölfarið og fluttu á lögreglustöð þar sem hann fékk að sofa úr sér.

Grunur var uppi um að maðurinn hefði slegið dyravörð í andlitið með þeim afleiðingum að tönn hans brotnaði. Meintur árásarmaður var látinn laus að lokinni yfirheyrslu. Lögregla biður þá sem geta veitt upplýsingar um þessi hópslagsmál að hafa samband í síma 480 1010.

Í morgun var svo tilkynnt um innbrot í sumarbústað við Hlíðarbraut 3 í Reykjaskógi. Þjófavarnakerfi hafði farið í gang kl. 22:56 í gærkvöldi, annan dag jóla. Eigandinn fékk boðinn í farsíma sem SMS skilaboð. En þar sem hann var ekki við símann þá varð hann ekki var við skilaboðin fyrr en hann fór að huga að símanum í morgun. Bakdyr höfðu verið spenntar upp og þjófurinn haft á brott Samsung 32 tommu flatskjá.

Í nótt leið bárust lögreglu fjórar kvartanir vegna samkvæmishávaða í heimahúsum. Þegar lögreglumenn komu á vettvang höfðu íbúar annað hvort verið búnir skrúfa niður eða gerðu það um leið og lögreglumenn komu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×