Innlent

Óku inn í snjóflóð

Athugið að myndin er úr safni.
Athugið að myndin er úr safni.
Þrír bílar óku inn í snjóflóð er féll á veginn við Selabólsurð, um 5 kílómetra frá Flateyri, nú seinnipartinn samkvæmt tilkynningu frá Landsbjörg. Sátu bílarnir fastir í flóðinu.

Björgunarsveitin Sæbjörg á Flateyri var kölluð út og sótti hún fólkið, en sjö manns voru í bílunum þremur. Tókst að losa tvo bíla og aka öðrum þeirra af svæðinu en hinir verða sóttir síðar þegar aðstæður leyfa.

Selabólsurð er þekkt snjóflóðasvæði en að sögn björgunarsveitamanna er flóðið nú nokkuð utar en venjulega og sýndist þeim það vera um 100 metra breitt. Skyggni er þó lítið á staðnum.

Bjargir voru einnig kallaðar út frá Suðureyri ef koma þyrfti að bílunum þeim megin. Björgunarfélag Ísafjarðar er svo á leið í Bjarnardal þar sem nokkur ófærð er og bílar sitja fastir.

Mikilvægt er að fólk taki mark á viðvörunum vegagerðar og almannavarna. Lögreglan, í samráði við Snjóflóðavakt Veðurstofunnar og Vegagerðina, hefur meðal annars bannað alla umferð um veginn um Eyrarhlíð.

Þá hefur verið ákveðið að rýma hús á Ísafirði af ótta við snjóflóð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×