Innlent

Álag á bráðamóttöku um jólin

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mynd/Vilhelm
Mikið álag var á bráðamóttöku Landspítalans um jólin og segir deildarstjóri marga hafa leitað þangað eftir slagsmál og heimilisofbeldi. Þá hafi ölvun sjúklinganna verið töluverð.

Jólin eru oft annasamur tími á bráðamóttöku Landspítalans og í ár mæddi mikið á starfsfólki deildarinnar. Deildarstjórinn segir töluvert hafa verið um skemmtanahald um jólin sem sem hafi endað á bráðamóttökunni.

„Það hafa verið líkamsárásir og pústrar og heimilisofbeldi og barnaverndarmál. Þetta er bara allur skalinn sem við fáumst við hér um jólin,"segir Ragna Gústafsdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku Landspítalans.

Þá segir hún ölvun hafa verið áberandi meðal þeirra sem þangað leituðu að nóttu til.

„Það er töluvert um ölvun og pústra um jólin," segir Ragna.

Ragna segir suma leita á bráðamóttöku eftir að fjölskylduskemmtanir fara úr böndunum. Tvö mál hafi verið tilkynnt til barnaverndarnefndar vegna ofbeldis á heimilum.

„Það þykir okkur alltaf sorglegt þegar við þurfum að eiga við barnaverndarmál um jólin. Það tekur mjög á," segir Ragna.

Ragna segir að á milli tvö og þrjú hundruð manns hafi leitað á bráðamóttökuna á hverjum sólarhring um jólin en lokun annarra deilda hafi sitt að segja. Alltaf sé nokkuð um að fólk leiti þangað sem líður illa eftir að hafa borðað mikið af reyktum og söltum mat.

„Sérstaklega hjarta og lungnasjúklingar finna vel fyrir því og koma mjög gjarnan hingað með sín vandamál," segir Ragna.

Starfsfólk bráðamóttökunnar býr sig nú undir áramótin sem eru annasamasti tími ársins á deildinni.

„Flugeldaslysin hafa sirka verið um 30. Það hefur svona aðeins breyst í kringum síðustu ár. Þetta voru mest unglingarnir. Við höfum náð árangri greinilega í því þeim hefur fækkað en núna eru það pabbarnir sem að eru stærsti hópurinn. Það er svona frá 25 ára kannski upp í 35 ára og þeir þurfa að passa sig pabbarnir," segir Ragna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×