Innlent

Mikið hringt í vinalínu um jólin

BBI skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni.
Að vera einmana á jólum er mörgum þungbært. Rauði krossinn hefur haldið úti hjálparlínu þar sem fólki gefst kostur á að hringja og heyra vinalega rödd.

„Því miður þarf fólk á okkur að halda," segir Haukur Árni Hjartarson, verkefnastjóri hjá Rauða krossinum, en hann var gestur í úvarpsþættinum Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni í dag. „Sérstaklega á þessum tímum, á svona fjölskylduhátíð þegar fólk er að koma saman. Þeir sem sitja einir heima finna þá svo sterkt fyrir því."

Haukur segir að flestir hringi til þess eins að spjalla við einhvern. „Bara eins og aðrir hringja í vini sína til að spjalla," segir hann. „Þetta snýst bara um spjall og kannski ef fólk er fast í neikvæðum hugsunum er reynt að ná þeim út úr þeim hugsunum til að sjá eitthvað jákvætt."

Allir sjálfboðaliðar Rauða krossins fara í gegnum ákveðið þjálfunarferli og fá ýmiss konar þjálfun, t.d. í að spjalla við fólk á vinalegum nótum.

Haukur segir að flest símtölunum sem berast hafi fækkað á síðustu árum. Flest voru þau árið 2010. „En það eru uppsveiflur og niðursveiflur í þessu eins og öðru," segir hann. Viðtalið í heild sinni má nálgast á hlekknum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×