Innlent

Ásgeir og Ingibjörg seldust mest

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Plata Ásgeirs Trausta og bók Ingibjargar Reynisdóttur um Gísla á Uppsölum eru sigurvegarar plötu og bókasölu jólanna. Rithöfundar þurfa að selja yfir sjö þúsund eintök til að komast á metsölulista segir formaður félags íslenskra bókaútgefenda.

Jólagjöfin í ár var íslensk tónlist samkvæmt rannsóknarsetri verslunarinnar og samkvæmt upplýsingum frá félagi hljómplötuframleiðenda hefur árið verið eitt það besta í sölu á íslenskri tónlist. Söluhæsta plata ársins er plata Ásgeir Trausta, Dýrð í dauðaþögn með hátt í tuttugu og tvö þúsund seld eintök. Í öðru sæti er hljómsveitin Of Monsters and Men en hún seldi ellefu þúsund eintök af plötu sinni My head is an animal á þessu ári en hafði selt níu þúsund eintök á síðasta ári og salan því samtals um tuttugu þúsund eintök. Þá er hljómsveitin Retro Stefsen í þriðja sæti með hátt í átta þúsund eintök á árinu.

Þó að endanlegur metsölulisti bóka liggi ekki enn fyrir kannaði fréttastofa í dag sölu bókaútgefenda á vinsælustu bókunum en vert er að taka fram að sala síðustu vikuna fyrir jól var þreföld á við vikurnar þar á undan. Samkvæmt upplýsingum frá Forlaginu voru þrjátíu þúsund eintök af bók Arnaldar Indriðasonar, Reykjavíkurnætur, send út í bókaverslanir. Í öðru sæti er bók Ingibjargar Reynisdóttur, Gísli á uppsölum með um átján þúsund eintök en bókin kláraðist hjá útgefanda. Þá er bók Yrsu Sigurðardóttur Kuldi í þriðja sæti einnig með um átján þúsund eintök.

Mikil örtröð hefur verið í verslunum í dag við skil og skipti á bókum og því ekki um endanlegar sölutölur að ræða þar sem óseldar bækur í verslunum eru sendar aftur til útgefanda eftir áramót. Formaður félags íslenskra bókaútgefenda segir Gísla á Uppsölum hafa komið mest á óvart en margir tengdir bókaútgáfu og sölu sem fréttastofa ræddi við í dag telja að bókin um Gísla gæti staðið uppi sem söluhæsta bók jólanna þegar öll kurl verða komin til grafar.

„Ingibjörg Reynisdóttir, þó hún hafi afrekað ýmislegt áður þá held ég að enginn og þá ekki einu sinni útgefandinn sjálfur hafi búist við að þessi bók yrði metsölubók," segir Kristján B. Jónasson, formaður félags íslenskra bókaútgefenda.

Hann segist almennt vera ánægður með bókajólin í ár og þau séu svipuð og undanfarin ár en hátt í þúsund nýir titlar voru gefnir út fyrir þessi jól.

„Það er líka athyglisvert að sjá hversu gríðarlega mikið af bókum þarf að prenta til að komast í efstu sæti listans. Það þarf t.d. yfir sjö þúsund eintök til að komast inn á topp tíu linstann,"segir Kristján.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×