Innlent

Víða rýmingar á Ísafirði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglan lokar vegi á Ísafirði vegna snjóflóðahættu. Mynd úr safni.
Lögreglan lokar vegi á Ísafirði vegna snjóflóðahættu. Mynd úr safni.
Snjóalög og veðurspá fyrir Vestfirði er með þeim hætti að hús á ákveðnum svæðum hafa verið rýmd með öryggi íbúa að leiðarljósi. Þannig hafa verið rýmd nokkur hús á Patreksfirði og á Ísafirði, auk nokkurra sveitarbæja í Dýrafirði, Önundarfirði og Hnífsdal, segir í tilkynningu frá almannavörnum.

Þá var veginum um Súðavíkurhlíð lokað nú síðdegis vegna snjóflóðahættu. Eins og fram kom á Vísi í dag mun ákveðnum vegaköflum verða lokað fyrir allri umferð klukkan sex í dag af sömu ástæðu. En þetta eru Eyrarhlíð, Suðureyrarvegur, Flateyrarvegur og Gemlufallsheiði.

Vegfarendum sem staddir eru í Súðavík er bent á þjónustumiðstöð sem staðsett er í Víkurbúðinni í Súðavík.

Vegir þeir sem lokaðir hafa verið munu ekki verða opnaðir í dag. Opnun mun ráðast af veðri næsta sólarhringinn. Vegfarendum er bent á upplýsingasíma Vegagerðarinnar, 1777, ef óskað er nánari upplýsinga um færð og veður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×