Innlent

Nær allir velja samfélagsþjónustu í stað sekta

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Tæplega 76 prósent þeirra sem dæmdir eru til að greiða háar fjársektir kjósa að borga ekki sektina og afplána frekar samfélagsþjónustu. Dómstólar hafa ekkert um málið að segja.

Á árunum 2000-2006 voru 81% sekta sem voru 8 m.kr eða hærri greidd með samfélagsþjónustu.

Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um eftirlit með innheimtu sekta og sakarkostnaðar er umfjöllun um fullnustu sekta á árunum 2007 til 2011.

Á þessu árabili voru 134 refsingar til fullnustu hjá Fangelsismálastofnun þar sem kveðið var á um sekt að fjárhæð 8 til 120 milljóna króna. Allar voru þær vegna brota á ákvæðum skattalaga og nam samanlögð heildarfjárhæð þessara sekta um 4 milljörðum króna.

Eins og sést á þessari mynd (sjá myndskeið með frétt) var yfirgnæfandi meirihluti dómsekta fullnustaður með samfélagsþjónustu á þessu tímabili eða 75,9 prósent, sem eru 103 af 134 refsingum.

Dómstólar hafa samkvæmt lögum aðeins heimildir til að dæma menn til fangelsisvistar eða greiðslu sekta. Samfélagsþjónusta kemur aðeins til sem fullnustuúrræði hjá Fangelsismálastofnun og því hafa dómstólar ekki heimild til að dæma menn til samfélagsþjónustu. Hefur þetta sætt nokkurri gagnrýni af hálfu fræðimanna í lögfræði.

Athygli vekur að í þeim 134 sektarmálum sem voru til umfjöllunar í skýrslunni höfðu dómstólar ekkert um það að segja hvernig þær voru fullnustaðar.

Í raun má segja að í þessum málum hefðu dómstólar getað svarað spurningunni hvort samfélagsþjónusta væri heppilegra úrræði en sektir, hefðu þeir yfirleitt haft til þess tækifæri. Þá má líka spyrja hvort markmið fésekta sem refsiúrræðis sé yfirleitt að nást ef nánast allir sem fá sektir fullnusta þær með samfélagsþjónustu. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×