Innlent

Eitt versta veður síðustu ára

Gunnar Reynir Valþórsson og Hafþór Gunnarsson skrifar
Eitt versta veður síðustu ára gengur nú yfir Vestfirði. Hættustig er í gildi og hús hafa verið rýmd í fimm þéttbýliskjörnum og á nokkrum bæjum vegna snjóflóðahættu.

Veðurspár gera ráð fyrir ofsaveðri, allt að þrjátíu og tveimur metrum á sekúndu í kvöld og í nótt. Verst hefur það verið á Vestfjörðum í dag og þá er spáð stórhríð á norðanverðu landinu í nótt og fram á morgun og raunar búast menn við vonskuveðri langt fram á sunnudag víða um land.

Hættustig vegna snjóflóðahættu er í gildi á afmörkuðum svæðum í fimm bæjarfélögum fyrir Vestan, á Ísafirði, Flateyri, Hnífsdal, Súðavík og á Patreksfirði.

Þá hafa íbúar á átta bæjum á svæðinu verið beðnir um að rýma þá. Vel er fylgst með framvindunni og ekki þykir loku fyrir það skotið að rýma verði fleiri svæði áður en nóttin er úti.

Súðavíkurhlíð var lokað um miðjan dag í dag og núna klukkan sex var lokað fyrir umferð um Eyrarhlíð, Suðureyrarveg, Flateyrarveg og Gemlufallsheiði.

Og eins og sjá má af myndunum í myndskeiðinu hér að ofan frá Ísafirði frá því í dag er snjórinn gríðarmikill.

Ómar Már Jónsson sveitarstjóri á Súðavík segir það ávallt afar óþægilegt þegar samgöngur rofna eins og gerst hefur í dag.

Umferð var hleypt á Súðavíkurhlíð um skamma hríð eftir hádegið í dag og þá hafði snjóflóð fallið á veginn sem ryðja þurfti burt.

Í björgunarmiðstöðinni í Skógarhlíð hafa viðbragðsaðilar setið á fundum í dag og búið sig undir það sem koma skal.

Víðir Reynisson hjá Almannavörnum segir að spáin sé mjög slæm og aðstæður ekki góðar. „Við tökum viðvörunum Veðurstofunnar mjög alvarlega í þessu tilviki," segir hann.

Björgunarsveitir ætla að vera með vakt í húsum víða um land í nótt og eru tilbúnar að kalla til meiri mannskap ef þörf krefur.

Víðir segir að ástandið sé einna verst á Vestfjörðum og segir hann stefna í vesta veður sem skollið hafi á í mörg ár.

„Ef allt fer á versta veg verður þetta versta veður sem við höfum séð í mörg ár. Snjóflóðahættuástandið sem nú er er það versta sem við höfum séð í talsvert langan tíma," segir hann og telur útlitið fremur slæmt.

Og hvað höfuðborgina varðar segir Víðir að husanlega verði mjög hvasst í nótt og í fyrramálið og var aðgerðastjórn almannavarna á höfuðborgarsvæðinu að búa sig undir að takast á við óveður á höfuðborgarsvæðinu í nótt þegar fréttastofu bar að garði í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×