Innlent

Fannfergið truflar sjónvarpsútsendingar

BBI skrifar
Fannfergið í dag.
Fannfergið í dag. Mynd/Hafþór
Fannfergið á landinu er slíkt að það truflar sjónvarpsútsendingar.

Viðskiptavinir 365 miðla hafa ekki náð erlendum sjónvarpsstöðvum uppá síðkastið. Ástæðan fyrir því er að öllum líkindum snjókoman að sögn Hrannars Péturssonar, upplýsingafulltrúa Vodafone.

Snjór hefur safnast saman í móttökudiskum Vodafone í slíku magni að þeir virka ekki til að taka móti sendingum erlendu sjónvarpsstöðvanna. Vodafone getur því ekki dreift þeim áfram til landsmanna, en Vodafone sér um dreifingu fyrir 365 miðla.

Móttökudiskarnir eru staddir á höfuðborgarsvæðinu.

„Menn bara hafa ekki undan við að hreinsa diskana," segir Hrannar og getur ekki sagt til um hvenær útsendingin verður komin á aftur.

Hrannar telur þetta líklegustu skýringuna en segir þó mögulegt að vandamálið liggi hjá viðtakendum sjálfum, þ.e. að fannfergið hafi haft áhrif á búnaðinn heima hjá fólki og snjórinn hlaðist utan á loftnet þar. „Það er í öllu falli snjórinn sem er að trufla sjónvarpsútsendingar," segir hann.

Rétt er að taka fram að engin truflun er á útsendingu íslenskra sjónvarpsstöðva.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×