Innlent

Hægt að sprengja í prýðilegu veðri

BBI skrifar
Siggi Stormur.
Siggi Stormur.
„Áramótaveðrið lofar góðu, og það verður hægt að sprengja í prýðilegu veðri hvarvetna á landinu," segir Siggi Stormur.

Nýjustu spár sýna hæðarhrygg yfir landinu á miðnætti á gamlársdag. „Það þýðir bara logn og bjartviðri, reyndar með stöku éljum fyrir norðan," segir Siggi sem var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni.

Hann sagði einhverjar líkur á því að spáin breyttist, en ekki með afgerandi hætti og þá helst þannig að hlýrra yrði í veðri og dálítil úrkoma hér og þar á landinu.

Ofsaveður á morgun

Siggi segir veðrið á landinu nú og á morgun hins vegar ekki jafnspennandi.

„Ég hef ekki séð svona kort alla vega í áratug. Þetta er raunverulega stórhættulegt veður og ég öfunda ekki snjóflóðafræðinga að leggja mat á þetta," segir hann.

Siggi segir útlit fyrir ofsaveður í höfuðborginni á morgun og varar eindregið við stormi um sex leytið á morgun.

„Mér finnst ástæða til að gefa í núna varðandi varúðarráðstafanir. Þetta er með því ljótara sem ég hef sé í langan tíma," sagði Siggi.

Viðtalið í heild má nálgast á hlekknum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×