Innlent

Nóg um að vera hjá Björgunarsveitum

Björgunarsveitir hafa verið að störfum víða um land í morgun. Björgunarsveitamenn á vestanverðu landinu eru sammála um að minna hafi verið um að vera en þeir áttu von á. En mikið hefur bætt í vind undanfarna klukkustund og veður víða orðið snarvitlaust.

Í Stykkishólmi losnuðu þakplötur af tveimur húsum en annars hefur verið tiltölulega rólegt hjá björgunarfólki . Aðra sögu er að segja frá Hvammstanga þar sem björgunarsveitin Húnar stendur í ströngu við að fergja lausa muni sem fjúka og sinna öðrum aðstoðarbeiðnum. Einnig hafa sveitir verið kallaðar út á Skagaströnd og Blönduósi.

Í Bolungarvík hefur Björgunarsveitin Ernir elst við fjúkandi járnplötur, lausan skjólvegg og birgt glugga. Einnig slitnuðu festingar á flotbryggju í höfninni. Þá var tilkynnt að þak væri að hrynja á fjósi við bóndabæ og fóru björgunarsveitamenn frá Flateyri og Ísafirði í það verkefni.

Björgunarsveitin á Rifi varð fyrir tjóni í morgun þegar fylla kom yfir sjóvarnargarð í höfninni, og á nýtt björgunarsveitahús, þannig að hurð brotnaði og sjór flæddi inn og bar með sér grjót inn á mitt gólf.

Súlur á Akureyri aðstoðuðu bíla sem flytja dagblöðin á Norðurland í Bakkaselsbrekku í morgun. Þar var mikil ófærð og grafningur og heiðin alveg lokuð. Hjálparsveit skáta í Aðaldal sinnti aðstoð við Landsnet.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×