Innlent

Almannavarnir funda um óveðrið - Rýmingu aflétt á Patreksfirði

Almannavarnir funduðu með Veðurstofunni, Vegagerðinni, björgunarsveitum, lögreglunni og Neyðarlínunni nú í hádeginu. Farið var yfir stöðu mála á Vesturlandi og Norðurlandi þar sem aftakaveður er nú. Víðir Reynisson, deildarstjóri Almannavarna, segir að rýmingu á einum reit á Patreksfirði vegna snjóflóðahættu hafi verið aflétt. Þetta þýðir að 52 íbúar geta nú snúið aftur til heimila sinna.

Björgunarsveitir verða í viðbragðsstöðu fram eftir degi en veðurofsinn mun ná hámarki sínu um miðjan dag.

Víðtækt rafmagnsleysi er á Vestfjörðum vegna bilunar nærri Mjólkárvirkjun. Starfsmenn virkjunarinnar hafa reynt að komast að biluninni til viðgerðar en orðið frá að hverfa vegna óveðursins. Víðir segir að langvarandi rafmagnsleysi á Vestfjörðum og Snæfellsnesi gæti haft slæmar afleiðingar í för með sér. Þannig gæti truflun orðið á samskiptum þegar líður á daginn. Hann bendir engu að síður á að landlínur sé enn virkar.

Hátt í 50 björgunarsveitarmenn hafa verið að störfum frá miðnætti og hafa verkefnin verið af ýmsum toga.

Eins og fram hefur komið í dag er ekkert ferðaveður á Vestfjörðum og Norðurlandi. Snjóflóðahætta er á vegum um Súðavíkurhlíð, Eyrarhlíð, Botnsdal og víðar. Á Norðurlandi er Siglufjarðarvegur og vegurinn um Ólafsfjarðarmúla lokaðir.

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu er óveður allt frá Mýrum norður um Vesturland, um allan Vestfjarðarkjálkann og allt austur á Tröllaskaga. Rétt sunnan við land er lægðarbóla sem enn sem komið er kemur í veg fyrir að norðaustanvindstrengurinn nái inn á höfuðborgarsvæðið. Lítið þarf að breytast til þess að veðrið á höfuðborgarsvæðinu versni til mikilla muna frá því sem nú er.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×