Innlent

Fáir á ferli í myrkvuðum Ísafjarðarbæ

Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki beint. Mynd / Halldór Sveinbjörnsson
„Við höfum bara haldið okkur heima," segir Halldór Halldórsson, formaður Samband Íslenskra sveitarfélaga og Ísfirðingur. „Við höfum nú ekki fundið fyrir kuldanum hingað til. Stuttu eftir að rafmagnið fór af þá kveiktum við bara í kamínunni þannig að það er funheitt hjá okkur."

Eins og fram hefur komið er rafmagns- og heitavatnslaust á Ísafirði og víðar á Vestfjörðum. Starfsmenn Orkubús Vestfjarðar vinna nú að viðgerðum á varaaflsvélum. Ekki má vænta heits vatns fyrr en þeim verður komið í gang. Halldór segir að fáir hafi verið á ferli í dag enda er blindbylur og hætta á snjóflóðum.

Rafmagn fór af í Árneshreppi og á Ströndum um sexleitið í morgun og telja orkubúsmenn nú að rafmagnslína sé slitin. Orkubú Vestfjarðar beinir þeim tilmælum til fólks að spara rafmagn eins og hægt er.

„Við höfum ekkert heyrt frá Orkubúinu eða bæjaryfirvöldum en við getum fylgst með stöðu mála í gegnum 3G samband," segir Halldór. „Hjá okkur er þetta bara nokkuð þægilegt. Það lamdist vel á alla glugga og það sést varla út þó svo að birtan hafi laumast inn fyrr í dag. Svo eru það bara kertin, kamínan og lestur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×