Innlent

Áttavilltur api öðlast heimsfrægð

MYND/AP
Viðskiptavinir IKEA í Kanada ráku upp stór augu í gær þegar agnarsmár api skaut óvænt upp kollinum í búðinni. Litli prímatinn, sem er af tegundinni rhesus macaque, var klæddur í glæsilega úlpu og gekk með bleiu.

Uppi varð fótur og fit í versluninni eftir að litla dýrið lét á sér kræla.

„Starfsmenn okkar hröðuðu sér að apanum. Þeim tókst að handsama hann," sagði Alvaro Carmona, verslunarstjóri. „Þetta gekk ansi hratt fyrir sig. Apinn var augljóslega vel taminn og var samvinnuþýður."

Lögreglan var kölluð til en sjálfur eigandinn, sem reyndist vera búðargestur í IKEA, gaf sig fram skömmu síðar. Hann tjáði lögreglumönnum að apinn væri sjö mánaða gamall og hefði flúið úr bíl sínum.

Síðasta sólarhring hefur þessi litli api öðlast heimsfrægð. Allir helstu fjölmiðlar vestanhafs og víðar hafa greint frá verslunarævintýri hans. Þá hefur hann einnig slegið í gegn á veraldarvefnum en eitt vinsælasta umræðuefnið á Twitter um þessar mundir er #ikeamonkey.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×