Innlent

Reykjavík tekur slaginn í baráttunni við atvinnuleysi

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra og Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík, undirrita á morgun samning um þátttöku sveitarfélagsins í þjóðarátakinu Vinna og virkni - átak gegn atvinnuleysi árið 2013.

Jafnframt verður undirrituð viljayfirlýsing þeirra sem aðild eiga að átakinu en það snýst um að virkja atvinnuleitendur sem hafa fullnýtt rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabílinu 1. september 2012 til 31. desember 2013. Þannig verður þeim öllum boðin vinna eða starfsendurhæfing á næsta ári.

Áætlað er að 3.700 atvinnuleitendur fái boð um vinnu eða starfsendurhæfingu á grundvelli átaksins.

Að viljayfirlýsingunni standa velferðarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalag starfsmanna ríkis og bæjar, Samband íslenskra sveitafélaga, Samtök atvinnulífsins, Vinnumálastofnun, VIRK starfsendurhæfingarsjóður og Starf vinnumiðlun og ráðgjöf.

Undirritunin mun fara fram hjá Prentmeti í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×