Innlent

Tæplega helmingur ánægður með niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Stjórnlagaráð að störfum.
Stjórnlagaráð að störfum. Mynd/ GVA.
43% aðspurðra eru frekar ánægðir eða mjög ánægðir með niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem fram fór 20. október síðastliðinn, um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnskipunarlaga. Tæplega 30% voru frekar eða mjög óánægð og 27% voru hvorki ánægð né óánægð. Þetta sýna niðurstöður MMR könnunar. Viðhorf fólks til niðurstaða þjóðaratkvæðargreiðslunnar reyndist nokkuð breytilegt eftir hinum ýmsu þjóðfélagshópum.

Ánægja með niðurstöðurnar jókst með hækkandi aldri, en 37,0% þeirra sem tóku afstöðu og voru í yngsta aldurshópnum, það er 18-29 ára, voru ánægð með niðustöðurnar borið saman við 48,5% í elsta aldurshópnum, eða fólk á aldrinum 50-67 ára.

Af þeim sem að tóku afstöðu voru 74,5% þeirra sem sögðust styðja ríkisstjórnina ánægð með niðurstöðurnar borið saman við 24,9% þeirra sem sögðust ekki styðja ríkisstjórnina. Ánægja með niðurstöðurnar var hlutfallslega lægst meðal þeirra sem sögðust styðja Framsóknarflokkinn (16,8%) og Sjálfsstæðisflokkinn (12,6%). Ánægja með niðurstöðurnar var hlutfallslega hæst á meðal þeirra sem sögðust styðja Samfylkinguna (85,0%), Dögun (75,8%) og Vinstri græna (73,2%).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×