Innlent

Ljósmæður og iðjuþjálfar vilja bætt kjör

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bæði ljósmæður og iðjuþjálfar vekja athygli á lágum launum sínum í ályktunum sem stéttarfélög þeirra sendu fjölmiðlum í morgun.

Í ályktun ljósmæðra segir meðal annars að láglaunastefna Landspítalans hafi ekki farið framhjá neinum sem fylgst hefur með fréttum undanfarin misseri. Landspítalinn sé vinnustaður þar sem mikill fjöldi kvenna vinnur undir miklu og vaxandi álagi á lágum launum. „Nú er svo komið að ljósmæður og hjúkrunarfræðingar geta farið erlendis og fengið tvöföld eða þreföld laun miðað við það sem borgað er á Landspítalanum. Það gengur ekki til lengdar," segir í ályktun ljósmæðranna.

Í ályktun Iðjuþjálfafélag Íslands er umræðu um kjaramál nokkurra fagstétta fagnað. Þar segir að ljóst sé að iðjuþjálfar hafi dregist talsvert aftur úr í launum á síðustu árum. Það veki sérstaka athygli að meðalhækkun launa iðjuþjálfa frá október 2008 sé einungis 4,4% sem sé langt fyrir neðan þær hækkanir sem kjarasamningar kveði á um. „Þetta er með öllu óásættanlegt. Til samanburðar má nefna að laun BHM félaga hafa hækkað um 15% að meðaltali og laun á almennum markaði hafa hækkað langt umfram laun opinberra starfsmanna," segir í ályktuninni.

Stutt er síðan á þriðja hundrað hjúkrunarfræðinga sögðu upp störfum á Landspítalanum vegna lágra launa. Elsa Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, telur að fleiri uppsagnir blasi við að öllu óbreyttu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×