Innlent

Fengu eiturefnabúnað vegna lekans í Vesturbæjarlaug

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður var í morgun.
Mikill viðbúnaður var í morgun.
Mikill viðbúnaður var við Vesturbæjarlaug í morgun eftir að Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins barst tilkynning um kolsýruleka.

Það var rétt fyrir klukkan tíu í morgun sem slökkviliðið fékk tilkynninguna um lekann. Óttast var í fyrstu að um klórgas væri að ræða sem er eitrað. Sigurður Lárus Sigurðsson er varðstjóri hjá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

„Við fórum strax á staðinn með einn dælubíl og þrjá sjúkrabíla og einnig kom lögreglan á staðinn og við gerðum ráðstafnir til að rýma sundlaugina og næsta nágrenni þetta er náttúrulega ekki gott að fá þetta út í andrúmsloftið og einnig fengum við frá Hafnarfirði aðstoð með eiturefnabúnað."

Fljótlega kom þó í ljós að ekki var um klórgas að ræða heldur einungis kolsýruleka. Lekinn myndaðist eftir að of mikið var sett á kolsýrutank í morgun. Efnið er notað til að drýja klórblönduna sem er notuð til að hreinsa sundlaugina.

„Sem að er miklu minni hætta af og reykkafarar fóru inn í rýmið og gátu skrúfað fyrir lekann."

Sigurður segir viðbúnað slökkviliðsins í morgun hafa verið mikinn. „Við vorum með mikinn viðbúnað og sendum mikið lið á staðinn þarna er rétt við hliðina, einhverja 200 metra frá, er leikskóli og einnig þétt íbúðabyggð þannig að við vorum með mikinn viðbúnað," sagði Sigurður Lárus Sigurðsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×