Innlent

Átján ára stúlka á sjúkrahúsi eftir fólskulega líkamsárás

Gissur Sigurðsson skrifar
Átján ára stúlka er enn á sjúkrahúsi eftir að hafa orðið fyrir fólskulegri líkamsárás inni á herbergi í gistiheimili í Reykjavík í nótt.

Það var starfsmaður gistiheimilisins sem kallaði á lögreglu um klukkan þrjú í nótt eftir að hafa heyrt mikla háreysti og neyðaróp frá herberginu og var árásarmaðurinn enn á vettvangi þegar lögregla kom að. Hann var þegar handtekinn og vistaður í fangageymslu, en konan var flutt með sjúkrabíl á slysadeild Landspítalans þar sem hún komst strax undir læknis hendur, enda með mikla áverka í andliti eftir barsmíðar, að sögn lögreglu, en ekki eru ummerki um að lagvopni eða barefli hafi verið beitt á hana.

Eftir því sem fréttastofan kemst næst kynntist fólkið fyrir skömmu og mun hafa búið saman í herberginu. Yfirheyrslur yfrir árásarmanninum hófust nú laust fyrir hádegi en lögreglan lítur málið mjög alvarlegum augum og það ræðst síðar í dag, hvort krafist verður gæsluvarðhaldsúrskurðar yfir manninum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×