Innlent

Ekki nógu greindarskertur fyrir skilorðsbundinn dóm

Mikið magn kannabis fannst í skemmu í umsjá mannsins.
Mikið magn kannabis fannst í skemmu í umsjá mannsins.
Karlmaður með þroskahömlun var dæmdur í átján mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjaness í morgun fyrir að hafa haft undir höndum hátt í þúsund kannabisplöntur, auk kílós af kannabislaufum sem fundust í skemmu í Sandgerði í ágúst árið 2011.

Maðurinn kom fyrir dóm og játaði sakargiftir en verjandi mannsins krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa og að fangelsisrefsing yrði skilorðsbundin yrði hún dæmd, þar sem maðurinn væri með væga greindarskerðingu eftir umferðaslys sem hann varð fyrir í júní árið 2005.

Þá hélt verjandinn því fram að maðurinn ætti erfitt með að tjá sig og skilja. Að auki hélt verjandinn því fram að maðurinn gæti ekki hafa staðið einn að ræktuninni.

Í dómi Héraðsdóms Reykjaness segir að þrátt fyrir að maðurinn segist stríða við þroskahömlun, og verjandi hans telji útilokað að hann hafi getað staðið einn að ræktuninni, þá hafi ekki verið upplýst hver annar gæti hafa komið að ræktuninni með honum.

Svo segir einnig í dóminum að þrátt fyrir þroskahömlun hins dæmda, sé hann nægjanlega greindur til að standa að slíkri ræktun. Því var maðurinn dæmdur í óskilorðsbundið fangelsi í eitt og hálft ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×