Innlent

Falleg stund á Lúsíuhátíð

Lúsíuhátíðin í dag. Það var mál manna að söngurinn hefði snert marga viðstadda.
Lúsíuhátíðin í dag. Það var mál manna að söngurinn hefði snert marga viðstadda.
Það var mjög hátíðleg og falleg stund í Norræna húsinu í morgun þegar Lúsíuhátíð var haldin fyrir fullt hús gesta. Sænski sendiherrann á Íslandi bauð kollegum sínum hér á landi að koma og hlýða á söng. Sjötti bekkur í Melaskóla kom ásamt foreldrum og fjöldi annarra gesta viðstaddur.

Tárin streymdu niður kinnar margra gesta þegar sænski barnakórinn, Lúsíukórinn á Íslandi, birtist með kertaljósin og lýsti upp myrkvið. Kórinn undir stjórn Maria Cederborg, flutti nokkur sænsk jólalög. Að loknum tónleikunum var boðið upp á kaffi og glögg, Lúsíuketti og piparkökur.

Í kvöld verða haldnir Lúsíutónleikar í Seltjarnarneskirkju sem hefjast klukkan hálfsjö. Í Svíþjóð og á Norðurlöndum er siður að halda Lúsíuhátíð 13. desember þar sem Lúsía og og þernur hennar syngja jólalög.

Samkvæmt gömlum sænskum heimildum er það elsta dóttirin á heimilinu sem vekur foreldra sína að morgni dags og færir þeim kaffi og lúsíuketti. Lúsíukettirnir eru smábrauð krydduð saffrani sem gerir þau fallega sólgul og ilmandi. Hún er með kertaljóskrans í hárinu, klæðist hvítum kyrtli og syngur Lúsíusöngva. Systur hennar hjálpa til og klæðast einnig hvítum kyrtlum, en bera aðeins eitt kerti í hendi sér, segir í tilkynningu frá Norræna húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×