Innlent

Nemendur hlutu verðlaun Forvarnardagsins

BBI skrifar
Frá verðlaunaafhendingunni.
Frá verðlaunaafhendingunni. Mynd/Vilhelm
Forseti Íslands afhenti í dag verðlaun Forvarnardagsins við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Forvarnardagurinn var haldinn 31. október í ár en þá tóku nemendur úr ýmsum skólum þátt í ratleik, en verðlaunin sem afhent voru í dag féllu í skaut þeirra nemenda sem sköruðu framúr í ratleiknum.

Forvarnardagurinn byggir á niðurstöðum íslenskra rannsókna sem sýna hvaða ráð duga best til að koma í veg fyrir að ungmenni verði fíkniefnum að bráð. Þar ber hæst þátttaka í íþrótta- og æskulýðsstarfi, samverustundir með fjölskyldunni og að fresta því sem lengst að neyta áfengis.

„Í skólum landsins er víða vel unnið að forvörnum og áhersla lögð á heilbrigt tómstundastarf enda hefur góður árangur náðst. Á Forvarnar-daginn fóru fram umræður nemenda í grunnskólunum og var leitað eftir hugmyndum þeirra og tillögum um nýjungar og breytingar á æskulýðs- og íþróttastarfi, fjölskyldulífi og öðrum þeim þáttum sem eflt geta forvarnir. Hugmyndir og tillögur nemenda voru teknar saman og settar í skýrslu sem birtast mun á vefsíðu dagsins, forvarnardagur.is," sagði í tilkynningu frá forsetaembættinu.

Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðrir aðstandendur dagsins eru mennta- og menningarmálaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Íþrótta- og  Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Bandalag íslenskra skáta, Rannsóknir og greining og Félag íslenskra framhaldsskóla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×