Innlent

Fundir milli jóla og nýárs ekki útilokaðir

BBI skrifar
Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.
Formenn þingflokkanna hafa fundað að undanförnu til að reyna að ná saman um dagskrá þingsins á lokametrunum fyrir jólafrí. Einnig þarf að ákveða hvenær þinghlé hefst. Þingflokksformennirnir funduðu í gær en ekki fékkst afgerandi niðurstaða.

„Staða málsins er þessi: það á eftir að ljúka umræðu um rammaáætlun, fjárlög, bandorminn og um lög um tolla og vörugjöld. Þetta eru stóru málin sem þarf að klára. Auk þess þarf að klára nokkur mál sem eiga rót sína í fjárlögum," segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Illugi segir að enn sé langt í land. „Það er alla vega augljóst að við verðum hér næstum fram að jólum," segir hann. Hann telur ekki útilokað að þingmenn neyðist til að funda milli jóla og nýárs. „Það hefur komið fyrir áður, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. Það er ekki hægt að útiloka það," segir hann.

Illugi segir að þingið geti ekki afgreitt mál af þessari stærðargráðu frá sér „á handahlaupum". „Það sem skiptir máli er niðurstaðan sem fæst í málin, ekki hversu lengi við tölum um málin," segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×