Innlent

Hálka og snjóþekja víða á landinu

Hálka eða hálkublettir eru víða bæði á Suður- og Vesturlandi, einkum í uppsveitum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Þar segir að á Vestfjörðum er víða hálka eða snjóþekja. Þæfingsfærð á Þröskuldum og Hálfdán en snjóþekja á Steingrímsfjarðarheiði. Ófært er yfir Hrafnseyrarheiði og þungfært á Dynjandisheiði.

Hálka eða snjóþekja er víðast hvar á Norðurlandi vestra. Á Þverárfjalli er snjóþekja og éljagangur og snjókoma yst á Siglufjarðarvegi og í Héðinsfirði.

Á Norðurlandi eystra er víða snjóþekja og éljagangur og unnið að hreinsun á vegum. Þæfingsfærð er í Köldukinn, á Fljótsheiði og Sandvíkurheiði.

Á Austurlandi er víða hálka eða snjóþekja. Unnið er að hreinsun á fjallvegum og er enn ófært á Fjarðarheiði en þæfingsfærð á Fagradal og snjóþekja og snjókoma í Oddskarði.

Á Suðausturlandi er hált á köflum, einkum austan til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×