Innlent

Um helmingur landsmanna með gervitré

Tæplega 91% landsmanna ætla að vera með jólatré í ár. Tæplega 52% ætla að vera með gervitré, en um 39% ætla að vera með lifandi jólatré. Þetta sýna niðurstöður skoðanakönnunar MMR en hún var gerð dagana 7-11. desember 2012. Alls voru 877 einstaklingar á aldrinum 18-67 ára spurðir.

Samkvæmt könnuninni var nokkur munur á því hvort fólk hyggðist hafa jólatré á sínu heimili og/eða hvernig tré, eftir búsetu, tekjum og stuðningi við stjórnmálaflokka.

Hlutfall þeirra sem sagðist verða með jólatré á heimilinu í ár hækkar með auknum tekjum. Af þeim sem tóku afstöðu og voru með heimilistekjur undir 250 þúsund krónur á mánuði sögðust 78,7% ætla að vera með jólatré á heimilinu í ár borið saman við 95,5% þeirra sem voru með 800 þúsund eða hærra í heimilistekjur á mánuði.

Þegar svör voru skoðuð út frá stuðningi við stjórmálaflokka kom í ljós að hlutfallslega flestir þeirra sem kváðust styðja Vinstri græna ætla að vera með lifandi jólatré, eða 59,7% þeirra sem tóku afstöðu, borið saman við 35,7% þeirra sem kváðust styðja Sjálfstæðisflokkinn. Aftur á móti sögðust hlutfallslega flestir þeirra sem kváðust styðja Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkinn ætla vera með gervitré á heimilinu í ár. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 59,6% þeirra sem studdu Framsóknarflokkinn ætla vera með gervitré á heimilinu í ár og 57,7% þeirra sem studdu Sjálfstæðisflokkinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×