Innlent

Vonast til að hægt verði að ákveða þinghlé fyrir dagslok

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fundaði með formönnum þingflokka í hádeginu.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir fundaði með formönnum þingflokka í hádeginu.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, vonast eftir því að hægt verði að ákveða fyrir dagslok hvenær þingið fer í jólafrí. Einungis þrír dagar eru eftir af starfsáætlun þingsins en fjölmörg mál bíða afgreiðslu.

Ásta hitti þingflokksformenn á fundi í hádeginu. „Það er bara verið að vinna í þessu áfram, en nú eru þingflokksfundir og menn ætla að bera mál undir þingflokkana. Það verða örugglega fleiri fundir," segir Ásta Ragnheiður, þegar Vísir sló á þráðinn til hennar um eittleytið. Hún segist vonast til þess að hægt verði að taka ákvarðanir um þinghlé fyrir kvöldið. „Vonandi, ég er ekkert viss samt. Því fyrr því betra," segir Ásta Ragnheiður.

Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag að heppilegra væri að geyma umræðu um rammaáætlun þar til í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×