Innlent

Umræðan um sykurskatt í skötulíki

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
„Þetta mál er í skötulíki, rétt eins og önnur mál sem tengjast bandorminum," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Guðlaugur situr í efnahags- og viðskiptanefnd þar sem frumvarp til breytinga á lögum um vörugjöld á matvælum hefur verið rætt undanfarna daga. Með breytingunum munu vörugjöld á sykur hækka.

Guðlaugur Þór segir að lítið sé eftir að röksemdafærslunni í kjölfar athugasemda frá Embætti landlæknis um hækkun sykurgjalda.

Markmið breytinganna er að fá fólk til borða hollari mat og sneiða hjá óhollustu.

Landlæknisembættið telur það vera ólíklegt að það markmið náist ef tillögurnar verða samþykktar í núverandi mynd. Þvert á móti eru líkur á að neysla sykurs muni aukast.

„Allar röksemdafærslur fyrir sykurskattinum verða að engu með þessu," segir Guðlaugur Þór. „Þetta er í raun grátbroslegt. Það var farið fram með manneldissjónarmið að leiðarljósi. Síðan er bent á hið augljósa, að það sé beinlínis verið að hvetja fólk til að neyta sykurs."

Önnur umræða um breytingarnar mun fara fram seinna í þessari viku.

„Það er ekki komið neitt útspil frá ríkisstjórnarflokkunum um hvernig þeir munu koma til móts við þetta," segir Guðlaugur Þór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×