Innlent

Árásin á gistiheimilinu: kærður fyrir nauðgun og ofbeldi gegn 4 konum

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag gæsluvarðhaldskröfu yfir 33 ára karlmanni sem á að hafa beitt konu hrottalegu ofbeldi á gistiheimili á Snorrabraut fyrir skömmu. Maðurinn er grunaður um fjögur ofbeldisbrot sem öll beindust að konum, auk þess sem hann var kærður fyrir að nauðga konu með hrottafengnum hætti í ágúst síðastliðnum. Hann hefur margsinnis komist í kast við lögin, meðal annars var hann dæmdur fyrir tilraun til manndráps árið 2003.

Við vörum fólk við lýsingum sem finna má hér fyrir neðan.

Um árásina á gistiheimilinu segir í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að maðurinn hafi ásakað konuna um að hafa fiktað í símanum sínum. Hann byrjaði þá að lemja hana með hnefum og henti stól í hana. Þá á hann að hafa dregið hana um á hárinu og sparkað í andlit hennar og bak. Þegar lögreglan kom á svæðið skipað hann henni að fara upp í rúm og undir sæng, „hætta að grenja og fela sig," eins og það er orðað í dómnum.

Fórnarlambið segir manninn einnig hafa tekið hníf og lagt hann upp að hálsinum á henni og sagt: "Ég drep þig og veistu hvernig ég geri það?". Þá hafi maðurinn haft í líflátshótunum við hana er hún hafi reynt að koma sér út úr herberginu.

En meint afbrotalota mannsins hófst fyrr. þannig er hann kærður fyrir að slá stúlku í höfuðið svo hún féll í gólfið og missti meðvitund í lok október. Það gerði hann eftir að hún bað hann um að biðja sig afsökunar á því að hafa kallað sig „helvítis tussu".

Stúlkan reyndi síðan að fá manninn út úr húsinu þar sem þau voru stödd en hann á þá að hafa ýtt henni inn á baðherbergi og ofaní sturtubotn þar sem hann á að hafa tekið hana hálstaki. Stúlkan hlaut rispur á hálsi og mar á kjálka.

Aðeins tveimur vikum áður á maðurinn að hafa slegið aðra konu nokkrum hnefahöggum í andlit, sparkað í síðu hennar þar sem hún hafi legið á gólfinu, og hoppað á maga hennar og á höfði, með þeim afleiðingum að hún á að hafa hlotið blóðnasir og bólgur á vinstri og hægri kinn og hægra auga, marblett á vinstri síðu, auk eymsla.

Það var hinsvegar í ágúst síðastliðnum sem maðurinn á að hafa nauðgað konu. Því er lýst þannig í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að hann hafi rifið utan af henni fötin, ýtt henni niður í sófa þar sem þau voru stödd á heimili hennar, og nauðgað henni bæði í leggöng og endaþarm. Rannsókn þessa máls er lokið og hefur verið sent ríkissaksóknara, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort ákæra eigi manninn fyrir brotið.

Maðurinn er einnig grunaður um innbrot, þjófnað, ölvunarakstur auk þess sem fyrrverandi unnusta hans hefur fengið nálgunarbann á hann. Maðurinn verður í gæsluvarðhaldi til 10. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×