Innlent

Segir minnihluta koma í veg fyrir að mikilvæg mál komist á dagskrá

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Minnihluti Alþingis kemur með málþófi í veg fyrir að mikilvæg mál komist á dagskrá þingsins líkt og fjárlög. Þetta segir þingflokksformaður Samfylkingarinnar. Óvissa er enn um þinglok en þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins vill að umræðum um rammaáæt verði frestað fram yfir áramót.

Ekki sér fyrir endann á annarri umræðu um frumvarp ríkisstjórnarinnar um vernd og orkunýtingu landssvæða eða rammaáætlun á Alþingi. Umræðurnar hafa staðið í ríflega 40 klukkustundir og yfir eitt hundrað ræður verið haldnar. Starfsáætlun þingsins gerir ráð fyrir að jólafrí hefjist á fimmtudaginn. Ásta Ragnheiður, forseti Alþingis, hefur fundað með þingflokksformönnum í dag til að reyna að ná samkomulagi um þinglok og hefur það enn ekki tekist.

„Menn eru auðvitað að tala saman og reyna að ná lendingu í þingflokki, umræðan hefur verið óvenjulöng og tíminn naumur fyrir fjárlögin. Það er orðið mjög áríðandi að ljúka þessu fyrir jól," segir Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir.

Illugi Gunnarsson þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins vill að umræðunni um rammaáætlun verði frestað fram yfir áramóti.

„Við munum reyna það sem við getum til þess að fá breytingar á rammaáætluninni, kannski tekst það ekki," sagði Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, meðal annars um málið en hann lítur svo á að niðurstaðan eigi að vera sátt á milli flokka.

Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir að það dyljist engum að þarna sé að eiga sér stað málþóf. „Og það er verið að koma í veg fyrir að meirihluti Alþingis fái að greiða atkvæði um málið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×