Innlent

Samkomulag náðist um framhald þingstarfa

JHH skrifar
Samkomulag um framhald þingstarfa á Alþingi náðist á tólfta tímanum í kvöld. Samkomulagið felur í sér að umræðu um rammaáætlun í virkjunarmálum verður hætt á morgun og ekki verður gengið til atkvæða um hana fyrr en þann 14. janúar næstkomandi.

Eftir að umræðunni um rammaáætlunina lýkur hefst á ný umræða um fjárlagafrumvarpið, tekjuöflunarfrumvarp og önnur mál sem tengjast fjárlagafrumvarpinu. Þá munu fleiri smærri mál, sem nokkur samstaða er um á milli meirihluta og minnihluta, verða rædd.

Samkomulagið náðist á fundi formanna stjórnmálaflokkanna og þingflokksformanna með Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, forseta Alþingis. Illugi Gunnarsson segir að mikilvægt sé að samkomulag hafi náðst um að fresta atkvæðagreiðslu um rammaáætlun. „Þar með gefst ef til vill svigrúm til að ná fram breytingum á frumvarpinu sem nauðsynlegar eru til að skapa sátt um málið þannig að þetta verði ekki bara rammaáætlun Vinstri grænna og Samfylkingarinnar,‟ segir Illugi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×