Innlent

"Ég læt mig ekki dreyma um að það sé nokkur tilviljun í þessu máli"

Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason
Árni Páll Árnason varaformaður utanríkismálanefndar segir tillögu fjögurra stjórnarandstæðinga og eins stjórnarþingmanns, um að fresta aðildarviðræðum við Evrópusambandið, séu krampakennd viðbrögð afla í þjóðfélaginu sem megi ekki til þess hugsa að þjóðin fái að taka frjálsa ákvörðun í málinu í ljósi staðreynda. Hann segir tillöguna hins vegar engu breyta í stöðunni.

„Tillagan verður nú væntanlega ekki samþykkt af nefdinni í heild. Ef hún á að fara inn í þing, þá verður hún að fara í nafni þeirra þingmanna sem að henni standa. Þá fær hún venjulega framgang, eins og venjulegt þingmál. Ég treysti því að Vinstri Grænir vinni eftir þeim stjórnarsáttmála sem við höfum unnið eftir þetta kjörtímabil," segir hann.

Þessi tillaga verði ekki flutt af utanríkismálanefnd og það verði að koma í ljós hvað verði um málið í þinginu.

„Ég túlka þetta ekki öðruvísi en krampakennd viðbrögð afla í samfélaginu, sem mega ekki til þess hugsa að þjóðin fái að taka ákvörðun, á forsendum staðreynda, um það hvernig hún vill haga samskiptum Íslands við önnur ríki."

Árni Páll segir að svo virðist sem öflin á bakvið þennan tillöguflutning óttist að staðreyndir málsins komi í ljós að loknum viðræðum við Evrópusambandið.

„Og að fólk fái allar upplýsingar um það hvað í aðildarviðræðum felist," segir hann.

Heldurðu að það sé tilviljun að þetta komi upp í dag, nú er utanríkisráðherrann í Brussel að opna sex nýja kafla í aðildarviðræðunum?

„Ég læt mig ekki dreyma um það að það sé nokkur tilviljun í þessu máli."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×