Innlent

Jólavargar komnir til Ísafjarðar - stálu og eyðilögðu jólaljós

Jólaljósin, sem tendruð voru á jólatrénu á Silfurtorgi á Ísafirði síðastliðin laugardag, fengu ekki að lifa lengi. Þegar starfsmenn bæjarins komu til vinnu í morgun var búið að brjóta margar perur á trénu og ekki nóg með það, heldur höfðu einhverjir gengið svo langt að eyðileggja ljósastæðin líka samkvæmt frétt Bæjarins besta um málið.

Í viðtali við miðilinn segir starfmaður áhaldahúss bæjarins að um tilfinnanlegt tjón sé að ræða. Mikið var um að vera í skemmtanalífinu um helgina og líklegt er talið að skemmdirnar hafi verið unnar aðfararnótt sunnudagsins.

Eins hafa jólavargar verið á ferð á Akureyri en Vísir greindi frá því í síðustu viku að hátt í 30 sérstökum sparperum hafi verið stolið úr jólaskreytingum í bænum auk þess sem rándýrum rauðum kösturum var stolið en kostnaðurinn mun eingöngu falla á bæjarbúa sem fá ekki að njóta fagurra jólajósa í myrkasta skammdeginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×