Kvennakór Hafnarfjarðar er kominn í jólaskap og fagnar hátíð ljóss og friðar með tónleikum sem haldnir verða fimmtudaginn 6. desember klukkan 20:00 undir yfirskriftinni Lífsins ljós. Að þessu sinni eru á dagskrá kórsins margar klassískar söngperlur, jafnt íslenskar sem erlendar, auk þekktra jólalaga sem sungin hafa verið inn í hjörtu Íslendinga á undanförnum áratugum. Stjórnandi Kvennakórs Hafnarfjarðar er Erna Guðmundsdóttir.
Píanóleikur er í höndum Antoniu Hevesi og bassaleikari er Gunnar Hrafnsson. Einsöngvari á tónleikunum verður Ívar Helgason en hann stundaði nám við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, Söngskólann í Reykjavík og við söngleikjadeild Tónlistarháskólans í Vínarborg. Hann hefur tekið þátt í söngleikjauppfærslum víða í Evrópu og m.a. sungið hlutverk Jean Valjean í Vesalingunum.
Miðaverð er 2.000 kr. og fer miðasala fram hjá kórkonum og við innganginn. Tónleikagestum verður boðið upp á kaffi og konfekt í hléi.
Kvennakorinn.org
