Innlent

Konan varð fyrir strætisvagni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það var strætisvagn sem ók á roskna konu í Nýbýlavegi í morgun. Konan var flutt með sjúkrabíl á slysadeild, en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var konan alvarlega slösuð.

„Ég var á leið til vinnu þegar strætóbílstjórinn æpir upp og snögghemlar. Svo finnum við högg og greinilegt að hann hafði keyrt á eitthvað," segir Franz Gunnarsson, farþegi í strætónum. Hann segir að bílstjórinn hafii opnað hurðina og Franz síðan hlaupið út. „Þá sé ég konuna liggja í jörðinni. Ég hringi á Neyðarlínuna og hlúi svo að konunni. Ég sé að hún er ekki með rænu og það blæðir úr henni," segir Franz.

Lögreglan hafi svo komið mjög fljótt að og tekið við. „Þá fer ég að hjálpa til við að losa þarna umferð af því að það er kominn bílahali þarna beggja megin. Þannig að aðgangur fyrir sjúkrabíla var erfiður. Við hjálpuðumst að nokkur við að losa um umferðina og svo kom sjúkrabíllinn," segir Franz. Á þessum tímapunkti hafi konan verið komin með smá rænu og smá tilfinningu í puttana. Því hafi verið settur kragi um háls hennar og svo brunað með hana upp á sjúkrahús. Franz segist ætla að spyrjast betur fyrir um líðan konunnar í dag.

„Bílstjórinn náði að bremsa sig niður þannig að þetta hefði getað farið miklu verr ef hann hefði ekki náð að sjá hana," segir Franz. Hann segir að farþegarnir í strætisvagninum hafi ekki slasast.

„Við köstuðumst nú aðeins til en við vorum nú bara þrjú í strætónum á þessum tíma og öll svona yngri að árum þannig að viðbrögðin voru slík að við náðum að grípa í," segir Franz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×