Innlent

Fiskveiðar smábáta lamast vegna mikillar ýsu

Kristján Már Unnarsson skrifar
Mikil ýsugengd samfara niðurskurði ýsukvóta er farin að lama fiskveiðar smærri skipa og báta um vestan- og norðanvert landið. Útgerðir segjast ekki geta veitt aðrar fisktegundir þar sem allt sé vaðandi í ýsu og grípa til þess ráðs að leggja bátunum.

Ýsukvótinn hefur verið að trappast niður og er núna aðeins þriðjungur af því sem var fyrir fimm árum. Á Drangsnesi kvartan menn sáran undan skorti á ýsukvóta, eins og sjá mátti í viðtölum í fréttum Stöðvar 2, þar sem sjómenn lýsa miklum ýsuafla um allan Húnaflóa. Útgerðir segja ýsukvóta ekki fást á markaði.

Óskar Torfason, framkvæmastjóri Fiskvinnslunnar Drangs, segir ástandið orðið alvarlegt og bátar hafi hætt veiðum vegna hás hlutfalls ýsu í aflanum. Aðrir reyna að forðast ýsuna með því að róa lengra út á haf.

Hjá Landssambandi smábátaeigenda segir Örn Pálsson að svona sé ástandið nánast hringinn í kringum landið en verst bitni það á línuútgerðum á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×